Fara í innihald

Spjall:Frjálshyggja

Innihald síðu er ekki stutt á öðrum tungumálum.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Nú tengir þessi grein í ensku greinina en:Libertarianism og það er viðeigandi miðað við efni hennar... en ef þetta er frjálshyggja, hvað er þá en:Liberalism? --Bjarki 16. janúar 2006 kl. 15:55 (UTC)[svara]

Frjálslyndisstefna. Passaðu þig á að rugla þeim ekki saman. Frjálshyggjumenn vilja ólmir rekja sinn eigin uppruna til stóru nafnanna í frjálslyndisstefnu ... persónulega minnir það mig á viðhorf bolsévika gagnvart Marx. Frjálslyndisstefna er gömul, og hefur kvíslast í ótrúlega mörg brot. Frjálshyggja er einungis eitt þeirra. --Odin 16. janúar 2006 kl. 16:00 (UTC)[svara]
Eiginlega ætti greinin að tengja bæði í en:Libertarianism og en:Liberalism. Því um hvort tveggja er (a.m.k. í sumum tilfellum) notað íslenska orðið frjálshyggja. Það er nú oft svo að orð sem eru margræð á einu máli eru það ekki á öðru o.s.frv. --Cessator 16. janúar 2006 kl. 20:45 (UTC)[svara]

Hlutleysismerking

[breyta frumkóða]

Ég vil meina að þessi grein sé aflestrar eins og áróðursblað frá einhverjum frjálshyggjusamtökum. Öll umfjöllun er frekar einhliða, einungis er sagt frá sjónarmiði frjálshyggjumanna á mikilvægum söguatriðum, t.d.. Einnig er nokkuð um það að ákveðnum skoðunum umdeilanleg atriði, eins og til dæmis orsakir skjóts hruns sovétblokkarinnar, er slengt fram eins og um óvéfengjanlegan sannleik sé að ræða. Ég myndi ekki gagnrýna slíkt orðalag á vefsíðu Frjálshyggjufélagsins, t.d., en í alfræðiriti sem hefur hlutleysi að leiðarljósi er erfitt að réttlæta það. --Odin 16. janúar 2006 kl. 16:39 (UTC)[svara]

Sammála Óðni, sérstaklega hvað varðar kaflann um "Frjálshyggjumenn 21. aldar", sem hefur viss stíleinkenni særingarþulu. Í ljósi þess, að enn eru 95 ár eftir af 21. öldinni, mætti ætla að höfundurinn sé skyggn, eða telji sig vera það. Kannski er þetta ný Völuspá, eða hvat? --EinarBP 17. janúar 2006 kl. 11:21 (UTC)[svara]
Sumt mjög undarlegt þarna. Hér þarf einhver hress virkilega að taka til hendinni. Koettur
Mér finnst þessi grein alls ekki eins hlutdræg og þið segið. Raunar hafa nokkrar nýlegar tilraunir til að laga hana aukið á POV. En það er heill kafli um algenga gagnrýni á frjálshyggju sem er skilmerkur. Hvað 21. öldina varðar er nokkuð augljóst að það er ekki átt við frjálshyggju árið 2079 heldur frjálshyggju það sem af er 21. öldinni. --Cessator 00:49, 5 nóvember 2006 (UTC)

Set aftur inn ", sem eru í raun jafnaðarmenn" enda eru margir liberals í Bandaríkjunum jafnaðarmenn! (og raunar allir jafnaðarmenn þar kallaðir liberals) - sagði Cessator. Ég breytti þessu með eiginlega af sömu ástæðum. Mér fannst asnalegt að á íslensku wikipediu tala um að bandarískir s.k. liberals séu jafnaðarmenn, þó þeir séu kallaðir það þar í landi. Vegna þess að mér finnst óeðlilegt að á íslensku wikipedia ráði bandarísk flokkun. Sem sagt: að þó margir bandaríkjamenn sem nefna sig liberals séu jafnaðarmenn, þá er sá hópur manna sem þar í landi kallast liberals ekki almennt sambærilegur við þá sem á íslandi kallast jafnaðarmenn. Koettur

Mjög stór hluti þess hóps sem kallast liberals í Bandaríkjunum væri líkast til meira og minna jafnaðarmenn á Íslandi. En annars er fullkomlega eðlilegt að útskýra ensku orðin á íslensku Wikipediu fyrst íslenska orðið er margrætt og er notað til að þýða það sem mörg orð eru höfð um á ensku. --Cessator 00:59, 5 nóvember 2006 (UTC)
Mér finnst nú samt að frjálslyndisstefna sé „réttasta“ þýðingin á en:Liberalism. --Akigka 02:28, 5 nóvember 2006 (UTC)
En samt var liberalisminn frá upphafi - og þá á ég við frá Locke og Smith - það sem við köllum frjálshyggju. Frjálslyndisstefnan er afmarkaðri notkun á „liberal“, þ.e. liberal með tilliti til einhvers, t.d. félagslegra málefna o.s.frv. --Cessator 02:37, 5 nóvember 2006 (UTC)
Mér finnst það heldur þröngur skilningur á „frá upphafi“. Ef við miðum aðeins við efnahagskenningar Smiths, þá, kannski gæti einhver (alla vega minn) skilningur á frjálshyggju átt þar við, en ég er samt á því að frjálslyndisstefna sé hefðbundnari þýðing á því sem nokkurn veginn allar aðrar útgáfur wikipediu eiga við með liberalism, og það snúist um fleira en efnahagslega þætti. --Akigka 03:08, 5 nóvember 2006 (UTC)
Svo er auðvitað vinkill á þessu að þótt þú trúir á að markaðshagkerfið eigi að ráða sér sjálft, þá geturðu samt verið „jafnaðarmaður“ í þeim skilningi að þú trúir á mátt markaðshagkerfisins til að jafna stöðu fólks (sum sé að dreifingarvandamálið o.fl. sé leyst af frjálsum markaði), samt sem áður finnst mér rangt í sögulegu ljósi að redirecta frjálslyndisstefna á frjálshyggja. Ég er á því að iw linkarnir eins og þeir eru hérna séu viðeigandi, en það sé ástæða til að setja upp sérstaka grein um frjálslyndisstefnu. Um það, og aðeins það, snýst þetta raunar, því í sjálfu sér finnst mér þessi grein vera ágæt fyrir sína parta. --Akigka 03:15, 5 nóvember 2006 (UTC)
Nú erum við sammála, að vísu ekki að öllu leyti, en kannski í aðalatriðum. Ég er nefnilega sammála þér um að greinin sé ágæt, eins langt og hún nær. Ég er sammála þér um að interwikitenglarnir hérna séu viðeigandi, þótt að vísu ætti einnig að tengja í liberalism - íslenska orðið er bara einfaldlega tvírætt af því að enskurinn flækti málið (í bókstaflegum skilningi). Og ég er líka sammála þér um að að það sé í lagi að hafa sérstaka grein um frjálslyndisstefnu - sem er aðalatriðið fyrir þig, ef ég skil þig rétt. Enn fremur er ég sammála þér um að það að kalla Locke og Smith upphaf frjálshyggjunnar sé þröngur skilningur enda nær sagan lengra aftur, eins og fram kemur í greininni; en ég bara nennti ekki að hafa langt mál um þetta og leyfði mér að vera ónákvæmur þarna ásamt ábendingu um hvað ég ætti við. En staðreyndin er samt sú að sú að það verður til alveg nýr kafli í sögu frjálshyggjunnar með Locke og Smith, svo þýðingarmikill raunar að það má alveg segja í örlítilli ónákvæmni að þar sé upphaf frjálshyggjunnar (eða kalla það upphafið og það sem á undan kemur forvera hennar). Ég er hins vegar ósammála því sem mér finnst þú ýja að, að frjálshyggja Lockes og Smith varði bara efnahagslega þætti. Hún gerði það nefnilega ekki. Hún stefndi t.d. að frjálslyndi í samfélagslegum málum. Hún fól í sér meira og minna allt sem þú myndir kalla frjálslyndisstefnu. Það eru t.d. hugmyndir Lockes sem höfðu áhrif á Thomas Jefferson þegar hann segir að hver maður eigi rétt á „life, liberty, and the pursuit of happiness“; hjá Locke hafði frasinn að vísu verið „life, liberty, and property“ (eða „estate“) en Jefferson var ekki að finna upp hugmyndina um að menn ættu að vera frjálsir til að leita hamingjunnar með þeim hætti sem þeir vildu, frjálsir til að lifa lífinu eins og þeir kysu. Hann fékk hana frá Locke (og Voltaire). Frjálshyggja var ekki bara markaðshyggja, eins og ég segi, hún fól í sér allt sem þú myndir kalla frjálslyndisstefnu. --Cessator 06:56, 5 nóvember 2006 (UTC)

Það væri gott ef einhver gæti bent á nákvæmlega þá staði þar sem greinin virðist vera hlutdræg, svo hægt sé að laga þá. Hvað staðhæfinguna um Sovétríkin varðar, þá er hún farin út og ég sé ekki að með tali um 21. öldina sé hallað á neinn eða hlutleysi á hátt skert. Sjálfum finnst mér greinin koma til álita sem gæðagrein. --Cessator 07:01, 5 nóvember 2006 (UTC)

Greinin er býsna áróðurskennd og með ýmsum mælskubrögðum. Til að mynda eru tiltekin fáein gagnrýniatriði á frjálshyggju en hverju atriði í upptalningu lýkur með að gagnrýninni er vísað frá svo útkoman er eins og frjálshyggja hafi sáralítilli gagnrýni mætt í gegnum tíðina og henni jafnan verið auðsvarað. Þetta er í anda greinarinnar sem hefur að geyma ýmsa þætti sem eru hæpnir. Kannski væri heldur ekki úr vegi að uppfæra færsluna svolítið, hún er komin til ára sinna. Snæfarinn (spjall) 24. ágúst 2012 kl. 00:44 (UTC)[svara]

Ég tel það fullnægjandi að kalla frjálshyggju stjórnspekikenningu. Thvj (spjall) 24. ágúst 2012 kl. 00:49 (UTC)[svara]

Hreingerning?

[breyta frumkóða]

Þessi grein hefur verið merkt fyrir brot gegn hlutleysisreglu í háa herrans tíð og mér fer að þykja tímabært að einhver taki að sér hreingerningu á henni, gott ef ekki endurritun frá grunni.

Eitt helsta vandamálið með þessa grein er að hún blandar samar hugtökum sem á flestum tungumálum eru aðgreind, liberalism (frjálslyndi) og libertarianism (frjálshyggja).

Þessi grein gefur sér að frjálshyggja eins og við þekkjum hana í dag sé einfaldlega sama fyrirbærið og allt sem var kallað liberalism á öldum áður, og að allt annað sem kallar sig frjálslynt (liberal) hafi afbakað eða stolið upphaflegri merkingu orðsins. Þetta er ekki beint óumdeild söguskýring og ég set spurningamerki við að henni sé haldið til haga hér eins og hún sé algildur sannleikur.

Í fyrri umræðum hefur verið bent á að í hugtakinu frjálshyggja á íslensku sé ákveðin skörun á ensku hugtökunum liberalism og libertarianism og að hugtakið þurfi ekki akkúrat að samsvara mismunandi merkingum á ensku. En megintexti þessarar greinar var skrifaður fyrir um einum og hálfum áratug og ég myndi segja að almenn máltilfinning flestra hafi breyst samhliða breytingum í stjórnmálamenningu og að flestir geri nú einhvern greinamun á hugtökunum frjálshyggja og frjálslyndi.

Blöndun á hugtökunum frjálshyggja og frjálslyndi annars staðar á íslensku er líka ruglingsleg. T.d. er fullyrt í greininni um Otto von Bismarck að Bismarck hafi verið mikill frjálshyggjumaður, þótt þessi grein gangist við því að "sigurganga frjálshyggjunnar hafi stöðvast" vegna Bismarcks. Hvort er það þá?

Annaðhvort þarf einhver stjórnmálafræðingur að fara í saumana á þessum texta, eða það þarf bara að henda honum út og þýða eitthvað úr öðrum tungumálaútgáfum í staðinn. TKSnaevarr (spjall) 7. mars 2023 kl. 10:11 (UTC)[svara]

Frjálslyndisstefna er núna tengd við en:Liberalism og frjálshyggja við en:Libertarianism (sem er í samræmi við hugtakaþýðingar í íðorðasafninu). Þetta er samt ruglingslegt af því undirliggjandi hugmyndirnar eru ruglingslegar og þvælast saman á ýmsan hátt eftir því hvaða samhengi er skoðað. Frjálshyggja hefur til dæmis á Íslandi aðallega verið notað yfir laissez-faire kapítalisma fremur en það sem nefnist á ensku libertarianism og er meira í ætt við stjórnleysisstefnu. En það er alveg rétt, það þarf að taka til í þessari grein. --Akigka (spjall) 7. mars 2023 kl. 11:52 (UTC)[svara]
Ég er ekki sammála því að hugtakið libertarianism á ensku vísi til stjórnleysisstefnu, alla vega ekki lengur. Það er til hugtakið anarcho-libertarianism sem er kannski í þá átt, en ég myndi segja að sú merking sem lögð er í það hugtak í dag sé nokkurn veginn sú sama og lögð er í orðið frjálshyggju á íslensku. Til dæmis eru Paul-feðgarnir og Frjálshyggjuflokkurinn í Bandaríkjunum meira og minna að boða sams konar hugmyndir og við kennum við frjálshyggju á Íslandi, og varla neina stjórnleysisstefnu. TKSnaevarr (spjall) 10. mars 2023 kl. 09:06 (UTC)[svara]
Í augum Íslendinga eru samt ýmsar algengar stefnur í stjórn efnahagsmála klárt dæmi um frjálshyggju (eða nýfrjálshyggju, sem er þýðing á neoliberalism) en enginn Bandaríkjamaður myndi fallast á að þær væru dæmi um libertarianism. Þannig að orðin frjálshyggja og libertarianism eru notuð í aðeins ólíku samhengi. Það þyrfti því helst að gera grein fyrir þeim blæbrigðamun í greininni, ef hún væri endurskrifuð miðað við :en:Libertarianism. --Akigka (spjall) 10. mars 2023 kl. 09:18 (UTC)[svara]