Fara í innihald

Andrés Magnússon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Andrés Magnússon (fæddur 1965) er íslenskur blaðamaður, sem skrifar um stjórnmál og fleira í Morgunblaðið, þar sem hann er fulltrúi ritstjóra. Hann hefur jafnframt annast vikulega umræðuþætti Dagmála Morgunblaðsins á netinu um stjórnmál og hefur sinnt kosningaumfjöllun, viðtölum og kappræðum frambjóðenda undanfarin ár.

Andrés hóf fjölmiðlaferil sinn sem blaðamaður á Morgunblaðinu árið 1986. Hann hefur starfað á ýmsum fjölmiðlum öðrum, meðal annars á DV, Pressunni, Eintaki og Blaðinu (síðar 24 stundum), en hann var einna lengst blaðamaður á Viðskiptablaðinu og skrifaði þar m.a. fjölmiðlarýni um árabil.

Hann hefur mikið fengist við skoðanaskrif og heldur fram hægrisinnuðum viðhorfum. Sem slíkur var hann reglulegur álitsgjafi í umræðuþáttum á borð við Silfur Egils. Hann var flokksbundinn sjálfstæðismaður um árabil og er bróðir Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Auk skrifa um stjórnmál og viðskipti hefur Andrés fjallað talsvert um netið, tölvur og tækni. Hann hefur einnig fengist við upplýsingagrafík, hönnun og gerð ritstjórnarkerfa samhliða blaðamennsku, þar á meðal frumgerð mbl.is árið 1998.

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.